Hengill

Jarðskjálftar á Hengilssvæði

ÍSOR rekur jarðskjálftamælanet á jarðhitasvæðum Hengilsins fyrir Orku náttúrunnar vegna orkuvinnslu á Nesjavöllum og á Hellisheiði. Einnig eru nýttir nálægir skjálftamælar úr landsneti Veðurstofu Íslands. Tilgangurinn er að afla upplýsinga um innviði jarðhitakerfanna og áhrif vinnslu og niðurdælingar á þau, einkum með tilliti til örvaðra jarðskjálfta. Mælarnir senda gögn með fjarskiptum til ÍSOR, þar sem jarðskjálftar eru staðsettir sjálfvirkt og upplýsingar birtar í rauntíma. Til þess notar ÍSOR SeisComP hugbúnað frá Gempa í Þýskalandi. Á virkum dögum er farið handvirkt yfir hluta sjálfvirkra staðsetninga, þær endurbættar ef við á og misskráningar lagfærðar. Á korti sem sýnir staðsetningu jarðskjálfta eru þeir merktir með hringjum með mismunandi litum, þar sem liturinn táknar tiltekið dýptarbil og stærð hringjanna fer eftir stærð jarðskjálftanna. Jarðskjálftamælar eru merktir með þríhyrningum.